Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu áætlar að á milli sjötíu og áttatíu manns séu samankomin á Austurvelli. Fólkið mótmælir lyktum Icesave-málsins en ekki hefur komið til átaka. Lögregla segir að fækkað hafi mikið á undanförnum mínútum.
Mótmælendur hafa verið utan við Alþingishúsið í allt kvöld, eða á meðan atkvæðagreiðslu um Icesave-frumvarpið stóð. Stanslaust ómuðu bílflautur og reglulega var skotið upp flugeldum, með tilheyrandi sprengingum. Jafnframt var kveiktur eldur sem snarlega var slökktur af lögreglumönnum.
Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni er lágmarksviðbúnaður vegna mótmælenda.