Óljóst er hvort atkvæðagreiðsla verður um Icesave-frumvarpið í dag, en þingfundur sem átti að hefjast klukkan 10:30 var frestað til klukkan 11, síðan til 11:30 og enn aftur til 12. Fundi fjárlaganefndari hefur einnig verið frestað. Þingflokksfundir voru boðaðir í skyndi til að fara yfir stöðu málsins.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, sagði að meirihluti fjárlaganefndar sætti sig við þau svör sem Svavar Gestsson, formaður samninganefndar um Icesave, gaf skriflega á fundi fjárlaganefndar í morgun. Um væri að ræða sambærilega yfirlýsingu og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sendu nefndinni í vetur. Hann sagðist ekki gera kröfu um að Svavar mætti á fund nefndarinnar.
„Ég veit ekkert um það,“ sagði Guðbjartur þegar hann var spurður hvort atkvæðagreiðsla um Icesave-frumvarpið færi fram í dag.