Enn hefur þingfundi verið frestað á Alþingi, nú til klukkan 15. Formenn stjórnmálaflokkanna hafa eftir hádegið setið á fundum með forseta Alþingis án þess að niðurstaða hafi fengist. Þá hafa þingflokksformenn einnig verið boðaðir á fund.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og ein af varaforsetum Alþingis, sagði fyrir stundu, að hún mæti stöðuna þannig að annað hvort hæfist þingfundur innan skamms og Icesave-málið yrði klárað í dag eða að þingfundum yrði frestað til 4. janúar.
Stjórnarandstaðan hefur krafist þess í dag, að leynd verði aflétt af tölvupóstssamskiptum milli bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya annars vegar og fjármálaráðuneytisins og Icesave-samninganefndarinnar hins vegar sem fram fóru í mars.