Stjórnarandstaðan krefst þess að leynd verði aflétt af tölvupóstssamskiptum milli bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya annars vegar og fjármálaráðuneytisins og Icesave-samninganefndarinnar hins vegar. Þetta mun vera meginástæðan fyrir því að þingfundum Alþingis hefur ítrekað verið frestað í morgun.
Þingfundi var nú síðast frestað til klukkan 12:30.
Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að þessi tölvusamskipti ættu að geta varpað ljósi á hvernig staðið var að kynningu Icesave málsins fyrir utanríkisráðherra í mars á síðasta ári. Þessir tölvupóstar væru til og hún sagðist ekki trúa öðrum en að þeir verði birtir, nema það sé eitthvað í þeim sem stjórnvöld vilja ekki að koma fyrir almenningssjónir.
Ólöf sagði að það ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að ljúka Icesave-umræðunni þegar búið væri að birta þessi gögn.
Formenn þingflokka hafa setið á fundi með forseta Alþingis þar sem tekist er á um þessi mál. Búist er við að framhald þinghaldsins ráðist af þessum fundi.