Edda Heiðrún Backman, leikkona, var kjörin maður ársins af hlustendum Rásar 2. Hún fékk 541 atkvæði í kjörinu en Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, varð í 2. sæti með 467 atkvæði og Eva Joly var í 3. sæti með 113 atkvæði.
Edda Heiðrún vakti mikla athygli á árinu þegar hún beitti sér fyrir fjáröflun fyrir Grensásdeild Landspítala en Edda Heiðrún þjáist af MND hreyfitaugungahrörnun. Hún sagði við Rás 2, að hún liti á þetta sem heillavænlegt skref fyrir Íslendinga og lýsti því hve allir væru tilbúnir til að standa saman um velferðina og heilbrigðismálin.
Guðmundur Sesar Magnússon, sem lést í sjóslysi í desember, var í 4. sæti í kjörinu, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, söngkona var í 5. sæti og Jóhanna Sigurðarsdóttir, forsætisráðherra, varð í 6. sæti.