Engin ákvæði um frest forseta

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðir við blaðamenn á Bessastöðum …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðir við blaðamenn á Bessastöðum í dag. mbl.is/Ómar

Samkvæmt stjórnarskrá Íslands skal leggja lagafrumvarp, sem Alþingi setur, fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Ekki er tekið fram í stjórnarskránni hvað langan frest forseti getur tekið sér.

Synji forseti lagafrumvarpi staðfestingar fær það þó engu að síður lagagildi en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Dæmi eru um að forseti hafi tekið sér frest áður en hann staðfestir lög með undirskrift. Vigdís Finnbogadóttir tók sér frest 24. október 1985 áður en hún staðfesti lög um kjaradóm í verkfallsdeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf. Þennan dag voru liðin 10 ár frá kvennafrídeginum árið 1975 og Vigdís hafði ekki ætlað sér að sinna neinum störfum þennan dag. Hún skrifaði undir lögin þremur stundum síðar.

Ólafur Ragnar Grímsson synjaði fjölmiðlalögunum svonefndu staðfestingu árið 2004. Alþingi samþykkti lögin með naumum meirihluta 24. maí en Ólafur Ragnar fékk frumvarpið til staðfestingar 1. júní  og tilkynnti 2. júní að hann myndi ekki staðfesta lögin. 

Lögin öðluðust þó gildi í samræmi við stjórnarskrána en áður en ríkisstjórnin ákvað að láta ekki fara fram um þau þjóðaratkvæðagreiðslu og voru þá sett ný lög, sem afnámu fjölmiðlalögin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert