Forseti tekur sér frest

Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fjölmiðlamenn á Bessastöðum í morgun.
Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fjölmiðlamenn á Bessastöðum í morgun. mbl.is/Ómar

Ríkisráðsfundinum á Bessastöðum er nú lokið. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, bar á fundinum fram tillögu um að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, staðfesti með undirskrift Icesave-lögin, sem samþykkt voru á Alþingi í gærkvöldi. 

Ólafur Ragnar tilkynnti ríkisstjórninni þá að ekki væri enn liðinn heill sólarhringur frá samþykkt laganna og þar að auki hygðist hann efna loforð um að funda með InDefence hópnum áður en niðurstaða yrði kynnt. Sá fundur yrði 2. janúar. 

Ólafur Ragnar tók það fram, þegar hann ávarpaði fjölmiðlafólk eftir fundinn, að á meðal þess sem hann myndi íhuga áður en hann tæki endanlega ákvörðun, væri það að stór hluti þjóðarinnar hefði skrifað undir áskorun til hans vegna málsins, einnig hefði hann hlýtt á ummæli einstakra þingmanna í umræðunum um Icesave málið síðustu daga.

Aðspurður sagði hann að engin viðbrögð hefðu orðið hjá ráðherrum vegna þessarar ákvörðunar hans og að enginn þeirra hefði óskað eftir því að taka til máls um það á fundinum. 

Nokkrir tugir mótmælenda var fyrir utan Bessastaði og settust nokkrir m.a.  á akbrautina framan við Bessastaði og reyndu þannig að koma í veg fyrir að ráðherrabílar kæmust burt. Lögregla færði fólkið burt en enginn var handtekinn.

Að sögn blaðamanns Morgunblaðsins á staðnum er lögreglan á staðnum, en þó ekki með mjög mikinn viðbúnað. Mótmælendur sungu einnig ættjarðarlög í morgun, hrópuðu slagorð, skutu upp flugeldum og kveiktu á blysum.  Þegar ráðherrar komu út úr húsi voru hrópuð að þeim ýmis slagorð og jafnvel ókvæðisorð, svo sem „svikari“.

Enginn ráðherranna vildi tjá sig um ríkisráðsfundinn eftir að honum lauk. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra sagði, aðspurður hvers vegna ráðherrar hefðu verið þungbúnir eftir fundinn, að það væri ekki von á því að menn væru glaðbeittir í lok svona erfiðrar viku. 

Mótmælendur settust á akveginn framan við Bessastaði og reyndu þannig …
Mótmælendur settust á akveginn framan við Bessastaði og reyndu þannig að hindra ferð ráðherrabílanna. mbl.is/Ómar
Mótmælendur á Bessastöðum í morgun.
Mótmælendur á Bessastöðum í morgun. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert