Sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að fresta því að taka afstöðu til þess hvort hann staðfestir Icesave-lögin eða ekki, hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla.
Breska blaðið Daily Telegraph segir í kvöld að grípi forsetinn inn í atburðarásina gæti það leitt til þess að diplómatísk deila milli Bretlands og Íslands, sem staðið hefur í 18 mánuði, blossi upp að nýju.
Synji forsetinn lögunum staðfestingar kunni þau að verða lögð fyrir fordæmalausa þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þau myndu mæta mikilli andstöðu.
Blaðið fjallar um samþykkt Icesave-laganna á Alþingi í gærkvöldi og hefur eftir ónafngreindum talsmanni breska fjármálaráðuneytisins, að sú samþykkt muni gera Íslandi kleift að endurheimta traust á alþjóðlegum mörkuðum og einbeita sér að efnahagsuppbyggingu.
Þá segir blaðið að alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor´s hafi ekki beðið boðanna og breytt horfum vegna lánshæfismats Íslands úr neikvæðum í stöðugar. Hafi fyrirtækið vísað til þess, að niðurstaða Alþingis leiði til þess að aðgangur Íslands að lánsfé frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nágrannalöndum opnist.