Kanna möguleika á fundi með InDefence

Bessastaðir á Áltanesi, bústaður forseta Íslands.
Bessastaðir á Áltanesi, bústaður forseta Íslands. Árni Sæberg

Starfsfólk skrifstofu forseta Íslands er nú að kanna hvort hægt sé að koma við fundi með fulltrúum InDefence hópsins, fyrir ríkisráðsfundinn sem boðaður hefur verið á eftir klukkan tíu. Fulltrúar InDefence hafa óskað eftir slíkum fundi, til að afhenda þær 45.000 undirskriftir sem þegar hafa safnast, í áskorun til forsetans um að beita málskotsrétti sínum  í Icesave-málinu.

Ekki hefur enn verið gefið svar, en þar sem tíminn er naumur stefna fulltrúar InDefence á að mæta að Bessastöðum klukkan hálftíu, að sögn Eiríks S. Svavarssonar lögfræðings. Þá kemur væntanlega í ljós hvort hægt verður að funda fyrir ríkisráðsfundinn.

Mest áhersla hefur verið lögð á að fá að afhenda forsetanum undirskriftirnar áður en hann gerir upp hug sinn í málinu, endanlega, en ríkisráðsfundurinn er eitt síðasta skrefið í átt að þeirri niðurstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka