Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í Kryddsíld Stöðvar 2 að hann gerði engar athugasemdir við að forseti Íslands vilji kynna sér nánar Icesave-lögin. Hann sagði að ákvörðun forsetans að taka sér frest hafi í sjálfu sér ekki komið á óvart.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að forsetinn hefði þegar sent frá sér ákveðin skilaboð með yfirlýsingu með Icesave-lögunum, sem sett voru í haust þar sem hann vísaði til fyrirvaranna, sem þá voru settir við ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindingarinnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að Ólafur Ragnar Grímsson hefði í raun þegar lýst því yfir, að málið væri tækt til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar hann staðfesti lögin í haust með sérstakri yfirlýsingu.
Steingrímur sagði, að engin lög væru til um hvaða stöðu þjóðaratkvæðagreiðsla skuli hafa. Þá hverfi Icesave-málið ekki þótt forseti Íslands synji lögunum staðfestingu.