Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hvatti til þess í áramótaávarpi sínu í kvöld að 2010 verði ár uppgjörs, réttlætis og sátta. „Vonandi berum við gæfu til að læra af reynslunni, endurskapa traust og byggja hér upp betra og réttlátara samfélag," sagði hún.
Þá sagði Jóhanna, að ríkið verði að setja skorður við sérhyggju og markaðshyggju. „Við endurreisnina á árinu 2010 skulum við krefjast ábyrgra fyrirtækja sem leggja rækt við það samfélag sem þau eru sprottin úr."
Jóhanna sagði meðal annars, að efnahagskreppan hafi beint sjónum fólks inn á við og fyrir marga sé það nánast ný uppgötvun hversu gjöfult Ísland er. Í ljósi skorts á hreinu drykkjarvatni á stórum heimssvæðum geti Íslendingar meðal annars verið þakklátir fyrir þá dýrmætu auðlind sem fólgin sé í íslenska vatninu. Það ætti að vera eitt af brýnustu verkefnum stjórnvalda, að íslenska vatnið verði skilgreint í stjórnarskránni sem almannaeign engu síður en fiskurinn í sjónum.
„Og sem þjóð þurfum við að beina sjónum okkar að því hvernig við getum nýtt ferskvatnslindir Íslands í þágu heimsins," sagði Jóhanna.
Hún sagði, að það ætti einnig að vera markmið Íslendinga og framlag til loftslagsmála í heiminum að skipta út kolefnasamböndum í orkubúskap þjóðarinnar og reka tól sín og tæki á innlendri, endurnýjanlegri orku.
Jóhanna sagði, að glíman við ríkisfjármálin verði erfið á næstu misserum.
„Saman munum við sigrast á þeim vanda – en fórnirnar sem færa þarf eru af þeirri stærðargráðu að lífskjör okkar kunna að færast í svipað horf og þau voru áður en allt fór úr böndunum í offjárfestingu og gífurlegri skuldsetningu. Gleymum þó ekki að lítil eftirsjá er að ýmsu sem einkenndi þjóðlífið á Íslandi í uppsveiflunni og gjarnan er kennt við árið 2007. Eftir allsherjar eignagleði og eyðslu er komið að gráum hversdagsleika skuldadaganna sem bitnar jafnt á þeim, sem tóku þátt í dansinum kringum gullkálfinn og hinum sem eyddu ekki um efni fram. Nú skiptir höfuðmáli að fá aftur fast land undir fætur og ná öryggri viðspyrnu – horfur eru á því að umskipti til hins betra verði á miðju næsta ári. Við skulum því á árinu 2010 hefja nýja sókn til sjálfbærra og stöðugra lífskjara," sagði Jóhanna Sigurðardóttir.