InDefence hópurinn hefur óskað eftir fundi með forseta Íslands, en undirskriftasöfnunin, með áskorun til forsetans um að skrifa ekki undir Icesave-lögin er nú orðin sú fjölmennasta frá upphafi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá InDefence.
Hópurinn segist þar fagna því að fá tækifæri til að koma vilja rúmlega fjörtíu þúsund Íslendinga á framfæri við forseta Íslands áður en hann tekur endanlega afstöðu til samþykktar eða synjunar nýrra Icesave laga.
Á hádegi í gær höfðu alls um 35 þúsund Íslendingar skrifað undir áskorun til forseta Íslands á www.indefence.is um að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar og leggja málið í dóm þjóðarinnar. Eftir að frumvarpið var samþykkt varð gríðarleg aukning á fjölda undirskrifta og eru áskoranir nú orðnar yfir 45.000 talsins.
InDefence segir, að þetta sé því fjölmennasta áskorun til forseta Íslands frá upphafi og talsvert stærri en bæði áskoranir vegna fjölmiðlalaga og vegna EES samningsins á sínum tíma. Undirskriftir á fimmta tug þúsunda Íslendinga endurspegli skýra andstöðu við nýju Icesave lögin.
„Væri forsetinn þeirrar skoðunar að mál þetta væri ekki tækt til þjóðaratkvæðagreiðslu hefði hann væntanlega aldrei staðfest lög um sama efni þann 2. september s.l. með sérstakri skriflegri tilvísun til fyrirvara Alþingis.
InDefence hópurinn fagnar því að fá tækifæri til að koma vilja rúmlega fjörtíu þúsund Íslendinga á framfæri við forseta Íslands áður en hann tekur endanlega afstöðu til samþykktar eða synjunar nýrra Icesave laga. Það er eindregin afstaða InDefence hópsins að afhenda beri forseta undirskriftirnar með góðum fyrirvara áður en hann tekur endanlega afstöðu til samþykktar eða synjunar nýrra Icesave laga.
Undirskriftarsöfnuninni lýkur ekki fyrr en forsetinn hefur tilkynnt endanlega afstöðu í málinu. Íslendingar eru því hvattir til að halda áfram að skrá sig á www.indefence.is þótt hópurinn afhendi forseta Íslands þær undirskriftir sem þegar hafa verið sannreyndar," segir í tilkynningunni.