Landsamband Hestamannafélaga segir það með öllu óskiljanlegt að veitt hafi verið leyfi fyrir brennu í um 140 metra fjarlægð frá þéttri hesthúsabyggð að Heimsenda í Kópavogi. Héraðsdýralæknir gagnrýnir ákvörðunina einnig harðlega.
Í yfirlýsingu segir landssambandið, að sérstaklega sé þetta furðulegt í ljósi þess að bæði yfirdýralæknir og Landsamband Hestamannafélaga hafi hvatt til varfærni með flugelda og brennur yfir áramótin.
„Það á ekki að þurfa að standa skýrum stöfum í lögum eða reglugerðum hvað má og hvað má ekki þegar málleysingjar eiga í hlut, heldur verður að höfða til almennrar skynsemi manna í ákvarðanatöku sem þessari. Landsamband Hestamannafélaga lýsir fullri ábyrgð á hendur viðkomandi yfirvalda ef upp koma slys sem rekja má til þessarar leyfisveitingar," segir í yfirlýsingunni.
Í yfirlýsingu frá Gunnari Erni Guðmundssyni, héraðsdýralækni Gullbringu- og Kjósarumdæmis, sem birt er á heimasíðu hestamannafélagsins Andvara, segir að mjög óheppilegt og reyndar óskiljanlegt sé að sett skuli upp áramótabrenna eins nálægt hesthúsabyggðinni á Heimsenda í Kópavogi, sem raun beri vitni.
Hvetur hann hestamenn til að vera í hesthúsum sínum komi til þess að kveikt verði í þessari brennu. Þeir reyni að sefa hesta sína með nærveru sinni, með heygjöf og með því að hafa útvörp í húsunum með t.d. tónlist, sem deyfi hljóðið frá skarkala brennunnar.