Mikill hiti var í mönnum á samstarfsfundi Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi og Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Að sögn forsvarsmanna félaganna mættu um 100 manns á fundinn, sem boðaður var með stuttum fyrirvara.
Þeir Bergur Kristinsson, formaður Verðandi og Valmundur Valmundsson, formaður Jötuns, segja að sjómenn séu reiðir stjórnvöldum og krafa fundarmanna á fundinum hafi verið, að öll sjómannafélög landsins og útvegsmenn sneru bökum saman gegn þeim sem vilja afnám sjómannaafsláttarins, 5% álag á útfluttan ferskfisk og fyrningu aflaheimilda.
„Ríkisstjórn Íslands er búin að setja sjávarútveginn í uppnám, sjómenn eru sárir, reiðir og finnst sem þeir séu sviknir. Að svíkja fólk er ávísun á það að það fólk sem svikið er svari fyrir sig. Fundarmenn voru sammála um það að tugir milljarðar hefðu tapast fyrir íslenska þjóð vegna fávísí ríkisstjórnar Íslands á sjávarútvegsmálum," segir í tilkynningu frá þeim Bergi og Valmundi.