Fréttaskýring: Skattur á langveikt fólk

Kona ein sem barðist við krabbamein árin 2002 til 2004 hefur höfðað mál gegn íslenska ríkinu, til endurgreiðslu á tekjuskatti af sjúkdómatryggingu. Mál hennar hefur verið þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur og verður fyrsta fyrirtaka líklega um miðjan janúar. Áður hafa bæði skattstjórinn á Reykjanesi og yfirskattanefnd ákveðið að tryggingaféð sé skattskylt. Konan krefst þess einnig að úrskurður yfirskattanefndar verði felldur úr gildi.

Sjúkdómatrygging er greidd út sem eingreiðsla og hefur lengi verið sett í svipaðan flokk og líftrygging í lögum. Greiðslan hleypur oft á nokkrum milljónum króna og er yfirleitt ekki bundin miklum skilyrðum um hvernig henni er varið. Sumir nota hana til að auðvelda sér að minnka álag í vinnu og aðrir til að gera nauðsynlegar breytingar á húsnæði sínu í kjölfar heilsutjónsins. Nokkur líftryggingafélög, bæði innlend og erlend, hafa selt þessar tryggingar hér á landi.

Um mikla hagsmuni er að ræða. Í minnisblaði sem Samtök fjármálafyrirtækja lögðu fyrir efnahags- og skattanefnd Alþingis fyrir jól kemur fram að um 44.000 tryggingaskírteini af þessu tagi eru í gildi í landinu. Oft eru fleiri en einn og fleiri en tveir tilgreindir á hverju þeirra. Málið varðar því stóran hluta þjóðarinnar. Í sama minnisblaði kemur fram að á hverju ári fá tæplega 100 manns greiddar bætur úr sjúkdómatryggingum og tryggingafélög í SFF, semsagt aðeins þau innlendu, greiða 350 til 400 milljónir króna í slíkar bætur á ári.

Árið 2008 taldi konan tryggingaféð, rúmar fimm milljónir kr., fram sem skattfrjálsar tekjur. Skattstjóri gerði athugasemd við að hún teldi greiðsluna skattfrjálsa. Samþykkti konan að greiða skattinn, tæpar 1,8 milljónir króna, með fyrirvara.

„Þessar tryggingar hafa verið seldar hérna frá árinu 1996. Svona hefur framkvæmdin verið. Tryggingafélögin hafa ekki tekið af þessu staðgreiðslu eins og þau gera með slysa- og sjúkratryggingar og ýmsar aðrar skattskyldar tryggingar. Auðvitað hafa skattyfirvöld vitað af þessum tryggingum,“ segir Hjördís E. Harðardóttir hæstaréttarlögmaður, sem fer með málið fyrir konuna. Málið setji þessa tryggingagrein, eins og hún leggur sig, í talsvert uppnám.

Mismunandi skilgreiningar á sama fyrirbæri

Í lögum um tekjuskatt frá árinu 2003 er tekið fram, í A-lið 7. greinar, að vátryggingafé vegna sjúkdóms teljist til skattskyldra tekna. Í það ákvæði vísa skattayfirvöld í þessu máli. Þ.e. að sjúkdómatryggingar séu „vátryggingafé vegna sjúkdóms“.

Hins vegar er í sömu lögum tekið fram að eignaauki, sem verður til vegna greiðslu líftryggingafjár, teljist ekki til tekna, þegar bæturnar eru greiddar út í einu lagi. Í þetta vísar konan og einnig í það að samkvæmt lögum um vátryggingasamninga frá 2004, segir að „heilsutryggingar án uppsagnarréttar“ teljist til líftrygginga.

Sjúkdómatrygging er yfirleitt án uppsagnarréttar og ætti samkvæmt því, sem líftrygging, að vera skattfrjáls.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert