Ekkert lát á undirskriftasöfnun InDefence sem ætlað er að hvetja forseta Íslands til að hafna frumvarpi um ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunni. Ólafur Elíasson, einn fulltrúa InDefence, segir að áætlað sé að afhenda forseta Íslands undirskriftirnar laugardaginn 2.janúar.
„Okkur hefur verið boðið að afhenda forseta Íslands undirskriftirnar á laugardaginn næstkomandi. Það hyggjumst við gera með virðulegri athöfn, sem við hvetjum alla þjóðina til að taka þátt í með virkum hætti. Nánari upplýsingar verða kynntar á næstunni, en við leggjum mikla áherslu á að þessi athöfn sé hátíðlegur fjölskyldufundur Íslendinga,“ segir Ólafur í samtali við Morgunblaðið. Kór Indefence undir stjórn Egils Ólafssonar mun syngja tvö ættjarðarlög undir tendruðum blysum. „Undir engum kringumstæðum viljum við að fólk komi með skotelda eða stjörnuljós. Geymið rauðu skipablysin á gamlárskvöld og mætið með þau á Bessastaði,“ segir Ólafur.
Að sögn Ólafs verður stutt ávarp lesið fyrir Ólaf Ragnar Grímsson og í kjölfarið mun hann fá afhentar undirskriftirnar. „Undirskriftalistinn verður opinn þar til Ólafur Ragnar annað hvort synjar lögunum staðfestingar eða undirritar þau. Við höfum þó vart undan við að prenta út undirskriftir,“ segir Ólafur.