Fjórir stjórnarþingmenn skrifuðu undir

InDefence hópurinn á tröppum Bessastaða.
InDefence hópurinn á tröppum Bessastaða. Ómar Óskarsson

Aðstandendur InDefence segja að a.m.k. fjórir þingmenn stjórnarflokkanna hafi skráð nafn sitt á undirskriftalista InDefence. Þar er skorað á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Leitað var staðfestingar á undirskriftum viðkomandi alþingismanna.

Þetta kom fram í samtali blaðamanns mbl.is við nokkra aðstandendur InDefence undirskriftasöfnunarinnar á Bessastöðum í dag. Þeir segja að af þessu megi draga þá ályktun að meirihluti sé í raun á Alþingi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Undirskriftasöfnuninni verður haldið áfram þar til forsetinn hefur tekið ákvörðun um hvort hann staðfestir lögin eða ekki. InDefence hópurinn mun skila forsetanum viðbótarheftum með undirskriftum ef þörf verður á.

Átta forsvarsmenn InDefence undirskriftasöfnunarinnar afhentu Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, undirskriftalistana í morgun. Á listunum voru undirskriftir 56.089 Íslendinga sem skrifuðu undir áskorun þess efnis að hann synji nýjum Icesave lögum staðfestingar.

Þeir Jóhannes Þ. Skúlason, Eiríkur S. Svavarsson, Magnús Árni Skúlason, Davíð Blöndal, Ólafur Elíasson, Sigurður Hannesson, Ragnar Ólafsson og Agnar Helgason gengu fyrir forsetann og afhentu hver um sig hefti með undirskriftum. Forsetinn tók við heftunum og bauð hópnum síðan til viðræðna í borðstofu Bessastaða.

InDefence mennirnir sögðu að fólk geti farið inn á vefsíðuna og gengið úr skugga um hvort nöfn þess hafa verið skráð þar. Ef einhver telur sig hafa verið skráðan á listann án síns samþykkis getur hann fengið nafn sitt fjarlægt.

Nöfn nokkurra þjóðþekktra manna voru ítrekað tekin út af listanum enda talið að þeir hafi ekki skráð sig sjálfir svo oft. InDefence-menn nefndu t.d. Davíð Oddson ritstjóra Morgunblaðsins í því sambandi. Einnig voru allar Jóhönnur Sigurðardætur kannaðar sérstaklega. Þær sem höfðu aðra kennitölu en forsætisráðherrann fengu að vera á listanum.

Undirskriftasöfnunin hófst að kvöldi 25. nóvember s.l. Undirskriftirnar sem afhentar voru í morgun voru samkeyrðar við þjóðskrá og voru rangar skráningar fjarlægðar. Um 93% þeirra sem skrifuðu undir eru 18 ára og eldri. Því hafa 23,3% atkvæðisbærra Íslendinga undirritað áskorunina. Nöfn þeirra sem ekki hafa náð kosningaaldri, en skrifuðu sig á listann, voru sett í sérstaka möppu. Þau nöfn eru til viðbótar þeim 23,3% sem eru á kosningaaldri. 

Undirskriftasöfnun InDefence

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert