Fundur fulltrúa samtakanna InDefence og forseta Íslands á Bessastöðum stóð í tæplega eina og hálfa klukkustund.
Jóhannes Þ. Skúlason, einn InDefence-manna, sagði sagði að fundurinn hefði verið mjög góður og innihaldsríkur og þeir hafi fengið tækifæri til að útskýra sín sjónarmið fyrir forsetanum og þau sjónarmið sem liggja að baki undirskriftasöfnuninni.
„Forsetinn tók málaleitan okkar vel og hlýddi á okkar röksemdir. Svo fóru fram örlitlar umræður í lok fundarins. Við erum mjög ánægðir með fundinn og þökkum forsetanum fyrir að hafa tekið sér tíma til að funda með okkur,“ sagði Jóhannes.
Hann sagði að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hefði ekkert látið uppskátt um hvenær hann tæki ákvörðun um Icesave-lögin.
Ólafur Ragnar frestaði því á ríkisráðsfundi á gamlársdag að taka afstöðu til þess hvort hann staðfestir Icesave-lögin eða synjar þeim staðfestingu. Hann vísaði þá m.a. til þess, að hann hefði heitið InDefence að taka á móti fulltrúum samtakanna og undirskriftum, sem safnað hefur verið á vef þeirra.
InDefence sagðist hafa afhent forseta Íslands 56.089 undirskriftir undir áskorun á forseta að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Á heimasíðu samtakanna segir, að 60.624 hafi skrifað undir áskorunina.