Segir forsetann taka undarlegan pól í hæðina

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, segir forseta Íslands hafa tekið undarlegan pól í hæðina varðandi staðfestingu laga um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna, með því að hafa ákveðið að taka sér umhugsunarfrest í óákveðinn tíma.

Þetta kemur fram á bloggsíðu Björns Vals. „Forsetinn segist þurfa að hugsa málið betur sem er dálítið sérstakt þar sem hann hefur haft málið í eyrum og fyrir augum a.m.k. jafnlengi og þingmenn sem hafa myndað sér skoðun á því og samþykkt það á Alþingi. Forsetinn hefur sömuleiðis ákveðið að boða fulltrúa Indefence hópsins til fundar við sig en sá hópur hefur ekki viljað semja um lausn Icesave-deilunnar. En hvað með alla þá sem hafa viljað semja og klára málið eins og þegar hefur verið gert? Ætlar forsetinn að boða þá á sinn fund,“ spyr Björn Valur.

„Það verður að ætlast til þess að forsetinn leiti víða fanga við að kynna sér málið fyrst hann er jafn tvístígandi í afstöðu sinni og hann virðist vera. Ekki má hann skaða land og þjóð með ákvörðun sinni og því eins gott að vera með allar hliðar málsins á hreinu – eða hvað,“ spyr Björn Valur ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert