Segir nýtt lánshæfismat S&P mjög sérkennilegt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir nýtt lánshæfismat alþjóðlega matsfyrirtækisins Standard & Poor's vera mjög sérkennilegt. Á gamlársdag kynnti fyrirtækið að það hefði breytt horfum á lánshæfismati ríkissjóðs Íslands úr neikvæðum í stöðugar.

Sigmundur Davíð bendir á að matsfyrirtæki vinni lánshæfismat fyrir skjólstæðinga sína og fái greitt fyrir það. „Ég velti því fyrir mér: „Eru þau að vinna þetta mat fyrir íslensk stjórnvöld?“ Og ég set þá í samhengi við orð viðskiptaráðherra þegar Fitch birti sitt mat, áður en að gengið var frá Icesave-frumvarpinu. Og viðskiptaráðherra fyrtist við og sagði að það hefði nú eiginlega verið búið að heita því að matið kæmi ekki fyrr en eftir gengið væri frá Icesave,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við mbl.is.

Hann undrast rökstuðning Standard & Poor's. „Rökstuðningurinn er sá að við ætlum að fylgja þessu plani Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem gengur í rauninni út á að halda gjaldmiðlinum veikum og gera Ísland að einhversskonar framleiðsluríki, sem framleiðir til útflutnings fyrir lág laun en flytur sem allra minnst inn. Þetta finnst mér vera mjög skuggaleg framtíðarsýn,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert