InDefence-undirskriftasöfnunin tók gríðarlega mikinn kipp eftir atkvæðagreiðslu Alþingis um ríkisábyrgð á Icesave skuldbindingunum þann 30. desember. Jóhannes Þ. Skúlason, einn talsmanna InDefence-hópsins sagði að sem skriða hafi farið af stað eftir atkvæðagreiðsluna.
„Það var mjög sérstakt að sjá að langt inn í nóttina, eftir atkvæðagreiðsluna [á Alþingi] þaut undirskriftafjöldinn upp á mesta hraða sem við höfum séð í söfnuninni. Það er greinilegt að Íslendingar hafa sterka skoðun á málinu,“ sagði Jóhannes.
InDefence-hópurinn hafði ekki gert sér neina hugmynd um hve margar undirskriftirnar gætu orðið. Jóhannes sagði að afgreiðsla Icesavemálsins hafi dregist lengur en menn áttu von á. Það kunni að skýra að einhverju leyti hve margir skrifuðu undir.
„Við erum mjög ánægðir með viðtökurnar og að hafa fengið tækifæri til að koma þessum undirskriftum til forsetans,“ sagði Jóhannes á hlaðinu á Bessastöðum að loknum fundi InDefence með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands.