Undirskriftir orðnar 60 þúsund

Tendruð verða rauð blys við Bessastaði.
Tendruð verða rauð blys við Bessastaði. mbl.is/Kristinn

Alls hafa nú 60.020 skrifað undir áskorun á vef InDefence samtakanna þar sem skorað er á  forseta Íslands að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Fulltrúar samtakanna munu afhenda Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta,  56.089 undirskriftir   í dag.

InDefence segir, að 92,9% undirskriftanna séu frá fólki á kosningaaldri, 18 ára og eldra. Hafi 23,3% kosningabærra manna því undirritað áskorunina.

InDefence hvetur fólk til að safnast saman við Bessastaði  og óskar þess að athöfnin fari fram á virðulegan hátt, eins og hæfir tilefninu. Afhendingin sé ekki vettvangur fyrir mótmæli af neinu tagi.

Athöfnin við Bessastaða hefst klukkan 11 á því að kór undir stjórn Egils Ólafssonar syngur „Ísland farsælda frón". Að því loknu verða tendruð rauð neyðarblys sem InDefence segir táknrænt ákall til alþjóðasamfélagsins um samábyrgð og sanngjarna lausn í Icesave málinu.

Til að forðast umferðarteppu er fólk hvatt til að leggja bílum sínum fjarri Bessastöðum og safnast saman við afleggjarann fyrir kl. 10:30.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert