Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði við Ríkisútvarpið í dag, að ríkisstjórnin hafi unnið hörðum höndum að því að leysa Icesave-deiluna. Hann sagðist ekkert vilja tjá sig um hvað forsetinn gæti tekið sér langan tíma áður en hann tekur afstöðu til Icesave-laganna.
„Við höfum auðvitað verið að vinna hörðum höndum að lausn þessa máls og koma því á endastað. Það tókst um áramótin. Þetta er ekki algert klukkutíma- eða dagaspursmál. Það má heldur ekki gleyma því að við höfðum gefið viðsemjendum okkar ákveðin fyrirheit um hvað við ætluðum að reyna sem gekk nú ekki eftir. En málið er í biðstöðu og það er í góðu milli aðila enda leggjum við vinnu í að svo sé," sagði Steingrímur.
Hann sagði ekki ólíklegt að eitthvað gerðist í málinu í dag. Hann sagði, að mikill fjöldi undirskrifta undir áskorun InDefence samtakanna kæmi ekkert á óvart enda sé þjóðin hundóánægð með málið og þetta væri birtingarform þess. Þá hefðu streymt inn miklar skráningar um áramótin í kjölfar mikillar kynningar, sem undirskriftasöfnunin fékk, og einnig yrði að hafa í huga að tiltölulega auðvelt væri að safna undirskriftum með þessum hætti á netinu.