Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, segir við Bloomberg fréttastofuna, að ef ekkert heyrist frá forseta Íslands í dag um hvenær hann taki afstöðu til Icesave-laganna, hljóti Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að hafa samband við hann í kvöld og hvetja hann til að taka ákvörðun á hvorn veginn sem er.
„Það þarf að fá niðurstöðu í þetta mál áður en fjármálamarkaðir verða opnaðir á ný í fyrramálið," hefur Bloomberg eftir Birni Val.
Árni Sigurjónsson, skrifstofustjóri skrifstofu forsetans, segir við Bloomberg, að engin ákvörðun hefði verið tekin um hvenær forsetinn tilkynni um niðurstöðu sína. „Hann mun skoða málið í dag. Það er ekkert um þetta að segja eins og er, það er verið að skoða spjöldin."
Björn Valur segir jafnframt við Bloomberg, að staðfesti forsetinn ekki Icesave-lögin þýði það endalok ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs.