Flugeldasala gekk misvel

mbl.is/Ómar

„Flugeldasölunni er ekki lokið því þrettándinn er ennþá eftir,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar innt eftir því hvernig flugeldasalan fyrir áramótin gekk hjá björgunarsveitunum. „En salan gekk nokkuð vel fyrir áramótin og það er mjög gott hljóð í fólkinu á sölustöðunum.“

Hún segir björgunarsveitirnar fjárhagslega sjálfstæðar einingar og því sé ekki vitað hvenær endanlegar sölutölur liggi fyrir. „Ég hef heyrt að salan hafi gengið betur en í fyrra, og að aukningin nemi kannski um 10 prósentum. Það er í rauninni framar okkar vonum.“

Hún segist ekki vita hvort salan hafi verið svona góð vegna þess að almennt hafi verið keypt meira af flugeldum nú en í fyrra eða vegna þess að fólk hafi frekar beint viðskiptum sínum til hjálparsveitanna fremur en annarra. „Við finnum þó vel fyrir því að fólk vill styðja björgunarsveitirnar.“

Ekki liggja sölutölur fyrir hjá þeim íþróttafélögum sem haft var samband við. Kristinn R. Jónsson framkvæmdastjóri Fram segir þó að heldur hafi selst minna af flugeldum í ár en áður. Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, segir söluna hafa gengið þokkalega og hún hafi verið svipuð og á síðasta ári. „Við erum bara ánægðir með að fólk skuli skila sér til íþróttafélaganna líka því sumir fá meira pláss en aðrir í þessari umfjöllun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert