Icesave-samkomulag mikilvægt

Alistair Darling.
Alistair Darling. Reuters

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, segir við Dow Jones fréttastofuna, að það sé afar mikilvægt, að íslensk stjórnvöld staðfesti samkomulag við Breta og Hollendinga um Icesave-skuldbindingarnar.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur enn ekki tekið afstöðu til þess hvort hann staðfestir lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna. En Darling, sem svaraði spurningum um málið eftir blaðamannafund í Lundúnum í morgun, hvatti forsetann til að staðfesta lögin.

„Ég tel það mjög mikilvægt," sagði Darling og bætti við að það muni gera hlutina mun erfiðari ef lögin verða ekki staðfest.  „Við höfum varið mörgum mánuðum á mjög árangursríkum fundum með íslenskum stjórnvöldum til að tryggja að við fáum féð greitt til baka," sagði Darling. 

Hann sagðist gera sér grein fyrir því, að íslensk stjórnvöld hafi mætt andbyr heimafyrir vegna þessarar löggjafar.  „Ég vil segja við Íslendinga, að ég veit að þetta er erfitt en þeir verði að gera sér grein fyrir því, að breska ríkisstjórnin þurfti að fást við afar erfiða stöðu þarlendra sparifjáreigenda sem áttu inneignir á íslenskum bankareikningum... Við förum fram á að fá bættan skaðann en  lengd greiðslutímabilsins er sanngjörn." 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert