„Mikill missir ef ég hefði farið“

Sophus Magnússon fyrir framan rútuna sem eyðilagðist í morgun.
Sophus Magnússon fyrir framan rútuna sem eyðilagðist í morgun. mynd/Bæjarins besta

„Ég er alveg í góðu lagi, en það var heppni að ég náði að koma mér ómeiddum út. Það hefði nú verið ljóti missirinn ef ég hefði farið,“ segir Sophus Magnússon í samtali við fréttamiðilinn Bæjarins besta, en Sophus slapp ómeiddur þegar eldur kviknaði í lítilli rútu í Svínadal í Dölunum í morgun.

Eldur kviknaði í lítilli rútu sem var á leið frá Ísafirði til Keflavíkur er henni var ekið um Svínadal í Dölum um kl. 11 í morgun. Ökumaðurinn, Sophus Magnússon, var einn í rútunni er óhappið átti sér stað. Hann var á leiðinni til Keflavíkur að sækja erlenda starfsmenn Ósafls sf., sem starfa við gerð jarðganganna milli Bolungarvíkur og Hnífsdals, að því er fram kemur á vef Bæjarins besta.

„Ég hef ekki hugmynd um það hvað gerðist, allt í einu kom upp reykur og síðan blossaði upp eldur frammi í rútunni. Ég hafði varla við að horfa á hversu hratt þetta gerðist og rétt náði að koma mér út,“ segir Sophus. „Ég náði ekki einu sinni að kippa tannburstanum mínum með sem ég er tiltölulega nýbúinn að kaupa eða nýrri tannkremstúpu.“  

Eldsupptök eru ókunn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert