Nefnd rannsakar nú Silungapoll

Það var starfsemi vistheimilisins á Breiðavík sem var upphaf að …
Það var starfsemi vistheimilisins á Breiðavík sem var upphaf að rannsókn á starfsemi vistheimila á síðustu öld. mbl.is/Ómar

Vistheimilanefnd vinnur nú  að könnun á starfsemi vistheimilisins Reykjahlíðar, heimavistarskólans Jaðars og vistheimilisins Silungapolls. Nefndin segist hafa leitast við að hafa samband við fyrrverandi vistmenn Silunga­polls og segir að þeim gefist enn tækifæri til að greina frá dvöl sinni þar.

Nefndin birti tvívegis auglýsingu í fjölmiðlum í október s.l. í tengslum við könnun á starfsemi   Silungapolls, þess efnis að fyrrverandi vistmenn heimilis­ins, sem óskuðu eftir að veita nefndinni upplýsingar um dvöl sína, hefðu samband við nefndina til að óska eftir viðtalstíma.

Segir nefndin, að ástæða þess að tekin var ákvörðun um að leitast við að hafa samband við fyrrverandi vistmenn Silunga­polls með þeim hætti sé sú, að á vistheimilinu voru líklega á annað þúsund einstaklingar vistaðir á starfstíma þess. Þá liggi ekki fyrir heildstæðar upp­lýsingar um þá vistmenn sem þar dvöldu og þar af leiðandi töluverðum erfið­leikum háð að bjóða fyrrverandi vistmönnum bréflega að koma til viðtals við nefndina.  

Er þeim sem áhuga hafa á því að koma í viðtal bent á að hafa samband við nefndina fyrir 1. febrúar nk. í síma 563-7016 eða senda ósk um viðtalstíma á netfangið vistheimili@for.stjr.is   

Nefndin var upphaflega skipuð af forsætis­ráð­herra með erindisbréfi, í apríl 2007. Nefndinni var í fyrstu falið að kanna starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur á árunum 1950-1980 og skýrsla um hana kom út í ársbyrjun 2008.

Í apríl það ár voru samþykkt lög um að nefndin skyldi starfa áfram og var þá tekin ákvörðun um að sjö tilgreindar stofnanir skyldu í fyrstu sæta könnun. Þetta voru Vistheimilið Kumbaravogur, Heyrnleysingjaskólinn, Stúlknaheimilið Bjarg, Vistheimilið Reykjahlíð, Heimavistarskólinn Jaðar, Uppeldisheimilið Silungapollur og Upptökuheimili ríkisins/Unglingaheimili ríkisins  

Nefndin hefur lokið við áfangaskýrslu um könnun á starfsemi Heyrnleysingjaskólans  Kumbaravogs og Bjargs og var hún birt opinberlega í ágúst á síðasta ári. Um þessar mundir vinnur nefndin að könnun á starfsemi v Reykjahlíðar, Jaðars og  Silungapolls. 

Nefndina skipa Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, formaður,  Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðusálfræðingur á Land­spítalanum, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og  Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Kennaraháskóla Íslands. Framkvæmdastjóri nefndarinnar er Þuríður B. Sigurjónsdóttir lög­fræðingur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert