Varaformaður fjárlaganefndar Alþingis gagnrýnir stjórnarandstöðuna harðlega fyrir það hvernig hún hefur tekið á Icesave-málinu. „Sáttatónn þeirra var falskur frá fyrsta degi. Þeirra er ábyrgðin og þannig hafa þau skrifað sína pólitísku sögu, sem óábyrg stjórnmálaöfl sem brugðust þjóð sinni á einum erfiðustu tímum í sögu lýðveldisins,“ skrifar Björn Valur Gíslason á bloggsíðu sína.
Hann segir að í sumar hefði náðst sæmileg samstaða um málið á Alþingi. Fjárlaganefnd hefði afgreitt málið svo til einhuga úr nefndinni „og í atkvæðagreiðslu á Alþingi virtist ætla að verða samstaða um að ljúka því með þeim hætti sem það lá fyrir,“ skrifar hann.
„En þegar á reyndi hljóp stjórnarandstaðan frá málinu og neitaði að styðja það allt til enda. Þannig varð stjórnarandstaðan til þess að kljúfa þing og þjóð upp í tvær fylkingar í stað þess að nýta tækifærið til að sameinast,“ skrifar Björn Valur.
„Það hefði orðið annar bragur á málinu ef þingheimur allur hefði stutt málið eins og það lá þá fyrir. Þannig hefði þingið náð að safna þjóðinni allri að baki sér og sýnt þjóðum heims að hér á landi væri órofin samstaða um lausn þessa erfiða máls. En í stað þess ákvað stjórnarandstaðan að sundra þingi og þjóð, kalla fram pólitíska andstöðu við málið og mynda þannig þá gjá sem þau sjálf segja að orðið hafi á milli þings og þjóðar í málinu.“