Sjö fíkniefnamál komu til rannsóknar hjá lögreglunni á Selfossi í liðinni viku. Öll málin komu í venjubundnu eftirliti fangavarða á Litla-Hrauni.
Tilkynnt var um innbrot í fimm sumarbústaði í Grímsnesi um helgina. Í flestum tilvikum var sjónvarpstækjum stolið. Eins var staðið að innbrotunum og segir lögregla líklegt að sama fólk hafi staðið að þeim.
Fyrir skömmu var brotist inn í veiðihús við Hlíðarvatn í Selvogi og þaðan stolið nýju leðursófasetti ásamt hljómtækjum og kaffivél.
Brotist var inn á verkstæði SG húsa við Austurveg 69 á Selfossi í byrjun síðustu viku. Hljómflutningstækjum og tölvuskjá var stolið. Þjófurinn braut sér leið inn í húsið með því að spenna upp hurð.
Lögreglan vinnur að rannsókn þessara mála og eru allar upplýsingar vel þegnar. Sími lögreglunnar er 480 1010.