Breytingin á skattalögunum er einkum fólgin í því að þriggja þrepa skattkerfi er tekið upp í stað flats skatts sem verið hefur í gildi hér á landi. En slíkum breytingum fylgir töluverður kostnaður.
Í frumvarpi fjármálaráðherra var gert
ráð fyrir að þessi kostnaður yrði um 90 milljónir króna og gerir Skúli Eggert
Þórðarson Ríkisskattstjóri ráð fyrir að áætlunin sé nokkuð nærri lagi.
Kostnaðurinn fellur einkum til vegna breytinga á tölvukerfum en eins og gefur að skilja þarf að hanna nýtt tölvukerfi vegna breytinganna. Þá er kynningarkostnaður einnig töluverður að sögn Ríkisskattstjóra.
Í frumvarpinu, sem nú er orðið að lögum, er einnig tekið fram að þegar frá líður þurfi að gera ráð fyrir því að auka þurfi skattaeftirlit vegna flóknara skattkerfis. Endanlegt mat á kostnaði liggur ekki fyrir en talað er um að fjölga þurfi stöðugildum um 7 vegna þessa.