Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segir á vef sínum, að ríkisstjórnin hafi ekki leyfi til að fara frá vegna Icesave málsins, hvorki pólitískt né siðferðilega.
„Allar götur frá því undirritaður Icesave-samningur kom fyrir Alþingi síðastliðið vor hefur ríkisstjórnin sagt að hljóti hann ekki samþykki meirihluta þingsins segi stjórnin af sér," segir Ögmundur. „Nú heyrist á stöku stjórnarliða - félaga minna - að komi til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem málið yrði fellt þá félli ríkisstjórnin jafnframt. Þessu mótmæli ég harðlega. Hér er ekki talað fyrir mína hönd! Þeir sem svona mæla eru reiðubúnir að fórna vinstri stjórn vegna Icesave.
Ég vona að allir haldi ró sinni, horfi á málið af yfirvegun og spyrji sjálfa sig hvort sé mikilvægara, lýðræðið og félagslega þenkjandi ríkisstjórn eða sú útgáfa af Icesave sem nú liggur á borði forseta Íslands. Ég vona að menn geri sér grein fyrir því að það var norrænn velferðarfáni sem til stóð að hefja að húni í Stjórnarráði Íslands næstu fjögur árin. Það er enn verkefnið."
Haft var eftir Birni Val Gíslasyni, þingmanni VG, á vef Bloomberg fréttastofunnar í gær, að ríkisstjórnin muni væntanlega ekki lifa það af ef forseti Íslands synjar Icesave-lögunum staðfestingu. Ögmundur greiddi atkvæði gegn lögunum á Alþingi 30. desember.