Slæmt er að búa við það óvissuástand sem ríkir sökum þess að forseti Íslands hefur ekki skorið úr um hvort hann staðfesti Icesave-lögin, segja stjórnmálafræðingarnir Ólafur Harðarson og Eiríkur Bergmann.
„Það er ábyrgðarhluti að láta heila þjóð bíða í ofvæni eftir niðurstöðu eins manns. Það er í sjálfu sér ekkert sérstaklega lýðræðislegt,“ segir Eiríkur. Hann bendir á að burtséð frá því hvaða ákvörðun forseti tekur, sé hætta á að Ísland fái þá ímynd á alþjóðavettvangi að vera óstöðugt ríki, dragi forsetinn ákvörðunina mikið lengur.
Ólafur segist gera ráð fyrir að forsetinn tilkynni ákvörðun sína í dag, enda væri mjög óheppilegt að draga það mikið lengur.
Sigurður Líndal lagaprófessor segir hins vegar ekkert undarlegt við það að forsetinn taki sér þennan tíma til að fara yfir málið, enda sé það um margt einstakt. Auk þess hafi gögn er málið varða borist þinginu rétt fyrir afgreiðslu frumvarpsins, sem skiljanlegt sé að forsetinn vilji kynna sér.
Þá bendir Sigurður á að Ólafur Ragnar hafi gefið út yfirlýsingar sem hann verði að gefa gaum, en eins og frægt er sagði forsetinn er hann rökstuddi ákvörðun sína um að skrifa ekki undir fjölmiðlalögin, að mikilvægt væri að ekki sé gjá á milli þingvilja og þjóðarvilja.
Þá staðfesti Ólafur Ragnar Icesave-lögin frá því í sumar með sérstakri tilvísun til fyrirvara Alþingis, sem margir vilja meina að séu nú að engu orðnir.
Þeir Ólafur og Eiríkur segja báðir erfitt að meta hvaða niðurstöðu forsetinn muni loks komast að. Þeir segja að vel megi vera að forsetinn hafi þegar tekið ákvörðun, en velji að draga að kynna hana til að undirstrika alvarleika málsins. Eiríkur segir forseta mögulega með þessu vilja senda þau skilaboð til umheimsins að lögin séu Íslendingum erfið.