Vatn almannaeign samkvæmt stjórnarskrá

Vatn er til margs nýtilegt. Til dæmis er hægt að …
Vatn er til margs nýtilegt. Til dæmis er hægt að drekka það.

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fagnar yfirlýsingu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um að eitt af brýnustu verkefnum þjóðarinnar sé að íslenskt vatn verði skilgreint í stjórnarskrá sem almannaeign.

BSRB, ásamt fjölmörgum öðrum samtökum, sendi erindi til stjórnarskrárnefndar Alþingis árið 2006 þar sem vakin var athygli á mikilvægi þess að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi.

Í erindinu til stjórnarskrárnefndar sagði m.a.: „Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds. Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru."

Á heimasíðu BSRB er birt hvatning til forsætisráðherra til að fylgja málinu eftir þannig að eignarhald þjóðarinnar á þeirri dýrmætu náttúruauðlind sem vatnið er verði tryggt til framtíðar.

ASÍ, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Kennarasamband Íslands, Landvernd, Mannréttindaskrifstofa Íslands , MFÍK, Náttúruverndarsamtök Íslands, Landssamband eldri borgara, SÍB, Ungmennafélag Íslands, Unifem á Íslandi, Þjóðkirkjan og Öryrkjabandalag Íslands stóðu að erindinu með BSRB á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert