Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fagnar yfirlýsingu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um að eitt af brýnustu verkefnum þjóðarinnar sé að íslenskt vatn verði skilgreint í stjórnarskrá sem almannaeign.
BSRB, ásamt fjölmörgum öðrum samtökum, sendi erindi til stjórnarskrárnefndar Alþingis árið 2006 þar sem vakin var athygli á mikilvægi þess að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi.
Í erindinu til stjórnarskrárnefndar sagði m.a.: „Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds. Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru."
Á heimasíðu BSRB er birt hvatning til forsætisráðherra til að fylgja málinu eftir þannig að eignarhald þjóðarinnar á þeirri dýrmætu náttúruauðlind sem vatnið er verði tryggt til framtíðar.
ASÍ, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Kennarasamband Íslands, Landvernd, Mannréttindaskrifstofa Íslands , MFÍK, Náttúruverndarsamtök Íslands, Landssamband eldri borgara, SÍB, Ungmennafélag Íslands, Unifem á Íslandi, Þjóðkirkjan og Öryrkjabandalag Íslands stóðu að erindinu með BSRB á sínum tíma.