Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur, líkt og fram hefur komið, boðað fjölmiðla á sinn fund á Bessastöðum klukkan 11. Ekki hefur verið gefið upp hvert tilefni fundarins er en fastlega má gera ráð fyrir því að hann geri grein fyrir því hvort hann muni undirrita Icesave-lögin.
Ólafur Ragnar hefur undanfarna daga hitt ráðherra að máli og samkvæmt Fréttablaðinu í dag hefur hann rætt við fjóra ráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrím J. Sigfússon, Gylfa Magnússon og Össur Skarphéðinsson.
Auk þess hefur Fréttablaðið heimildir fyrir því að að á mánudag hafi hann rætt símleiðis við Má Guðmundsson seðlabankastjóra, og fleiri sérfræðinga, um efnahagslegar afleiðingar þess að synja frumvarpinu staðfestingar.
Ítarlega verður fjallað um fund Ólafs Ragnars með fjölmiðlum hér á mbl.is.