Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, svarar þeim fullum hálsi, sem sent hafa henni ávirðingar fyrir að kjósa með Icesave-frumvarpinu á Alþingi fyrir áramót.
Ólína og aðrir þingmenn sem sögðu já við frumvarpinu fengu hundruð tölvupósta í innhólfin sín. Í flestum þeirra stóð einfaldlega: ,,Ég kýs þig ekki, þú kaust með Icesave!" Að sögn Ólínu hafði ýmsum fúkyrðum verið tvinnað við suma póstana og henni brigslað bæði um föðurlandssvik, þjóðníðingshátt og fleira.
Í tölvupósti sem Morgunblaðinu barst sagði Ólína einum sendanda tölvupósts að skammast sín fyrir aðra eins áramótakveðju til þeirra sem séu að vinna fyrir hagsmunum hans og komandi kynslóða.
„Skammastu þín fyrir sjálfsbirgjungshátt þinn og yfirlæti gagnvart því fólki sem leggur nótt við nýtan dag til þess að forða íslenskri þjóð frá gjaldþroti, og leggur þetta á sig undir skítkasti og öfgafullum hatursáróðri," sagði Ólína líka í póstinum.
Ólína staðfestir í samtali við mbl.is að hafa sent póstinn, en þetta svar hafi aðeins farið til þeirra sem tvinnuðu fúkyrðum við upprunalega póstinn. „Þetta mál hefur verið okkur þingmönnum gríðarlega erfitt, eins og þjóðinni allri. Það er mikil og löng törn að baki. Ég er ekki á vinsældaveiðum í þessu máli. Hvorki þegar ég svara fyrir mig né heldur þegar ég tek afstöðu," segir Ólína. Hún stendur við þessi orð, gagnvart því fólki sem ávarpaði hana með brigslum um föðurlandssvik, þjóðníðingshátt, eilífa skömm og aumingjaskap.