Fundi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda er lokið, en fundurinn hófst um kl. 19 í kvöld. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði eftir fundinn að ljóst væri að atvinnulífið stæði frammi fyrir gríðarlegri óvissu.
Vilhjálmur segir m.a. óvissan lúti að því hvernig íslenskum fyrirtækjum gangi að fá lán erlendis.
Staða mála var almennt rædd eftir ákvörðun forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Vilhjálmur segir að stöðugleikasáttmálinn hafi ekki verið ræddur sérstaklega, heldur hafi verið farið vítt og breitt yfir málin.
Ekki liggur fyrir með frekari fundarhöld, en búist er við að formenn stjórnarflokkanna muni funda með fulltrúum Seðlabanka Íslands í kvöld.