Hefur áhrif á ýmsa efnahagslega þætti

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að ríkisstjórnin verði að bregðast skjótt við ákvörðun  forseta Íslands við því að skrifa ekki undir Icesave-lögin. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir ljóst að þessi ákvörðun forsetans muni hafa áhrif á ýmsa þætti í efnahagslífi Íslendinga.

Jóhanna sagði á fundi með blaðamönnum að afloknum ríkisstjórnarfundi að hún vildi ekkert segja um það að svo stöddu hvort ríkisstjórnarsamstarfið sé í  uppnámi.

Steingrímur segir að með því að senda strax út tilkynningu um að Ísland muni eftir sem áður standa við sínar skuldbindingar þá hafi vonandi verið hægt að róa ástandið aðeins niður. Mikilvægt sé að viðbrögð stjórnvalda séu fumlaus og traust og ekki til þess að valda óvissu.

Boðað hefur verið til fundar í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna klukkan 15. Segir Jóhanna mikilvægt að þar fái flokkarnir ráðrúm til þess að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Aðspurður um hvort ríkisstjórnin verði ekki að ákveða með framhaldið á allra næstu klukkustundum þar sem forseti Íslands sé á leið úr landi sagði Steingrímur að ríkisstjórnin muni ekki láta ferðalög forsetans hafa áhrif á störf sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert