Talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins segir að ráðuneytið sé afar vonsvikið með þá ákvörðun forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Það sé óásættanlegt að engin lausn sé fyrir hendi á Icesave-málinu. Hollendingar bíði nú viðbragða ríkisstjórnar Íslands.
Í viðtali við Morgunblaðið skömmu fyrir hádegi sagði Ruud Slotboom, fjölmiðlafulltrúi hollenska fjármálaráðherrans Wouter Bos, að Hollendingar gerðu ráð fyrir skjótum viðbrögðum frá íslensku ríkisstjórninni um hvað muni gerast nú. „Vegna þess að það er óásættanlegt að engin lausn sé fyrir hendi vegna Icesave-málsins,“ sagði hann. Hugsanlega muni fjármálaráðherrann tjá sig um málið síðar í dag.
Í samtali við Reuters fréttastofuna segir Slotboom að hollenska ríkisstjórnin muni byrja á því að hafa samband við ríkisstjórn Bretlands um hvert framhaldið verði. Hann segir hins vegar of snemmt að segja til um hvort ákvörðun forseta Íslands muni hafa áhrif á lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða umsókn Íslendinga um inngöngu í Evrópusambandsins.