Hollenski Verkamannaflokkurinn óttast að pólitískt upplausnarástand myndist á Íslandi í kjölfar synjunar forseta Íslands á Icesave-lögunum. Þingmaður kristilegra demókrata í Hollandi, Frans Weekers, leggur til að hollensk stjórnvöld beiti Íslendinga hörðu í málinu og undirbúi lögsókn. Ekki sé hægt að reiða sig á Ísland og Íslendinga og segist Weekers vera búinn að fá sig fullsadda af Íslendingum, að því er fram kemur í frétt á vef hollenska dagblaðsins Volkskrant.
Formaður Verkamannaflokksins, Paul Tang, segir ljóst að Hollendingar verði að bíða aðeins lengur en ástandið sé mjög skrýtið.
Weekers segir að Íslendingar telji Hollendinga nægjanlega góða þegar þeir þurfi á peningum að halda en þegar komi að skuldadögum þá neiti þeir að greiða. „Ég hef fengið nóg af þessu." Hann gengur jafnvel svo langt að segja að Hollendingar eigi að slíta viðskiptasambandi við Íslendinga og hefur flokkur hans farið fram að Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, komi til viðræðna á hollenska þinginu um þann möguleika.