Íslendingar í vondum málum

Össur Skarphéðinsson í Alþingishúsinu í dag.
Össur Skarphéðinsson í Alþingishúsinu í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að með ákvörðun forsetans í dag séu Íslendingar í verulega vondum málum enda hafi viðbrögð alþjóðasamfélagsins við ákvörðuninni verið mjög harkaleg eins og með slíku hefði raunar má búast við.

„Við höfum reynt að bregðast við eftir mætti og höfum sent fréttatilkynningar til stjórnvalda á Norðurlöndunum, Bretalandi, Hollandi og víðar og reynt að lágmarka skaðann þannig. Höfum beðið menn um að bíða með yfirlýsingar. Eigi að síður hefur ekki staðið á viðbrögðum sem koma fyrr og eru harkalegri en ég bjóst við,“ sagði Össur.

Breski bankamálaráðherrann sagðist í dag myndu vilja rjúfa á tengsl Íslendinga við hið alþjóðlega fjármálakerfi. Aðspurður sagði Össur að sér þætti sér sú yfirlýsing hryggileg. Það væri fljótfærni að tala með þeim hætti án þess að viðræður milli málsaðila hefðu farið fram. 

„Hins vegar gátum við Íslendingar alltaf gengið að því vísu að viðbrögðin yrðu þung. Þeir sem hafa barist gegn Icesave hér á landi hafa sett málið upp þannig að þetta snérist um að við slyppum við að borga. Það er hins vegar ekki inni í myndinni, við höfum axlað skuldbindingar í málinu eins og var staðfest með lögunum í ágúst sl,“ sagði utanríkisráðherra.

Aðspurður um frekari viðbrögð erlendis frá kvaðst hann ekkert vilja segja en minnti á að fyrir ári síðan hefði þess verið freistað af viðsemjendum Íslendinga í Icesave-málinu að setja EES-samninginn í uppnámi.  „Stjórnvöld munu reyna að vinna úr þeirri stöðu sem nú er komin upp með sem jákvæðustum hætti og beita okkar afli og tengslum til að draga úr viðbrögðunum," segir Össur.

Aðspurður um áhrif ákvörðunar forseta Íslands á ríkisstjórnarsamstarfið segir Össur Skarphéðinsson ekkert benda til annars en stjórnin haldi velli. Báðir leiðtogar stóru stjórnarandstöðuflokkanna hafi talað á þann veg að synjun forseta sé ekki krafa um að stjórnin víki og úti í þjóðfélaginu sé ekki talað á þeim nótum. Einnig mætti spyrja hvort annar betri valkostur biðist, enda hefði núverandi ríkisstjórn ýmsu góðu áorkað í endurreisn efnahagslífsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert