Mikil óvissa á næstu vikum og mánuðum

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson. mbl.is/RAX

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að ákvörðun forseta Íslands muni leiða til mikillar óvissu á næstu vikum og mánuðum bæði á pólitíska sviðinu og um endurreisnaráætlunina sem fylgt hefur verið.

„Það er ljóst að þetta mál [Icesave] hefur þegar haft talsvert mikil áhrif á þetta og hefur verið forsenda eða skilyrði af hálfu margra sem eru að hjálpa okkur út úr þessu ástandi.

Þessi ákvörðun forseta breytir engu um þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Auk þess að verja okkar kjarasamning, sem okkur tókst að tryggja í október, hefur Alþýðusambandið lagt mjög mikla áherslu í sínu starfi undanfarið ár á tvennt. Annars vegar á aðgerðir í atvinnumálum, því það er ekkert sem veldur meira hruni kaupmáttar fjölskyldna en að missa atvinnuna. Þess vegna höfum við lagt mjög mikla áherslu á uppbyggingu, bæði af hálfu stjórnvalda, þar sem hægt er að koma því við og á uppbyggingu atvinnulífsins svo fyrirtækin geti farið að fjárfesta og ráða fólk í vinnu.

Hns vegar höfum við lagt mikla áherslu á greiðslustöðu heimilanna. Við máttum sæta því að það mál frestaðist fram eftir öllu síðasta ári vegna þessa tiltekna máls. Við höfum síst þörf á aukinni óvissu nú um þetta verkefni,“ segir Gylfi.  

Hann segir að nú þegar þessi niðurstaða liggur fyrir eftir ákvörðun forseta þá verði vinna úr henni. „Við munum auðvitað gera það hvað okkar starf varðar. Við erum í samstarfi við stjórnvöld og atvinnurekendur um stöðugleikasáttmála. Það er ljóst að sá aðili sem ber ábyrgð á að hrinda hlutunum í framkvæmd er dálítið laskaður en það breytir því ekki að við munum áfram leggja áherslu á að verja hagsmuni félagsmanna okkar í hvívetna og freista þess að áfram verði hægt að taka ákvarðanir um uppbyggingu, þrátt fyrir þessa ákvörðun. En óvissan hefur aukist,“ segir Gylfi.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert