Nær öllum ljósaperum hefur verið stolið af jólatré fyrir framan Safnahúsið á Ísafirði. Að sögn Jóhanns Hinrikssonar, forstöðumanns Safnahússins, hefur einhver óprúttinn aðili látið til skarar skríða seint í gærkvöldi eða í nótt.
„Nokkrum perum hafði verið stolið milli jóla og nýárs en ég var búinn að skipta um þær. Ég átti leið fram hjá í fyrrakvöld og þá var kveikt á öllum perum en aðra sögu var að segja í gærmorgun,“ segir Jóhann við vefinn bb.is.
Að sögn Jóhanns hefur verið stolið um hundrað perum. Þó hefur þjófurinn ekki náð í topp trésins en það er um tveir metrar á hæð. Af hæðinni að dæma má þó ætla að ekki sé um smávaxinn aðila eða barn að ræða. Jóhann hefur farið með málið til lögreglunnar.