Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafði orð Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands fyrir því, að hann kynnti henni ákvörðun sína í Icesave-málinu áður en hann kunngerði hana á blaðamannafundi á Bessastöðum. Niðurstaðan varð hins vegar önnur.
Undirliggjandi tónn í fréttum erlendra fjölmiðla í dag hefur verið sá að ákvörðun forseta þýddi að Íslendingar hygðust ekki standa við skuldbindingar sínar í Icesave-málinu. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að reynt hafi verið eftir að föngum að bregðast við þeim misskilningi meðal annars með fréttatilkynningum til erlendra fréttamiðla auk heldur sem hann hafi í dag verið í viðtölum við ýmsa erlenda fjölmiðla, meðal annars breska og hollenska.
Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur lækkað lánshæfismat íslenska ríkisins niður í ruslflokk með neikvæðum horfum. Er þetta gert í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar. „Hætt er við að tíma getið tekið að vinna lánshæfismatið aftur upp. Það er ákaflega sorglegt að það skyldi hrapa því það var lagt af stað í hina áttina. Matið var hins vegar ekki nema daginn að falla niður í ruslflokk. Núna skiptir hins vegar öllu að róa ástandið niður og á fundum okkar með aðilum vinnumarkaðarins voru allir sammála um að lágmarka ókyrrðina,“ segir Steingrímur.