Segir stjórnina starfa áfram

Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar.
Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

„Stjórnin starfar áfram og hefst handa við að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, að loknum þingflokksfundi nú síðdegis. Hann sagði að nú væri ekkert annað að gera en að halda áfram. „Við hlaupum ekki frá landsstjórninni.“

Björgvin sagði að umræður á þingflokksfundinum hafi verið yfirvegaðar og hófstilltar um þá ákvörðun forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingar. „Þetta er stjórnskipun í landinu og við gerum ekki athugasemd við það, þó að við séum mjög ósátt við ákvörðun forseta. Við teljum að hinar efnahagslegu afleiðingar af ákvörðun hans geti verið mjög alvarlegar,“ sagði Björgvin. 

Hann sagði að af erlendum fjölmiðlum að ráða séu afleiðingar ákvörðunar forsetans þegar farnar að koma í ljós. „Þær virðast ætla að verða jafnvel enn þá harkalegri og alvarlegri heldur en hinir svartsýnu spáðu,“ sagði Björgvin. Hann sagði að vonandi tækist að lágmarka skaðann og gera grein fyrir afstöðu stjórnvalda hér.

„Við ætlum ekki að hlaupast frá þessari ábyrgð. Málið er í þessum farvegi núna og við erum að reyna að vinna úr því,“ sagði Björgvin. 

Hann sagði að ákvörðun forsetans hafi valdið djúpstæðum vonbrigðum meðal þingmanna Samfylkingarinnar. „Fólk lá ekkert á þeirri skoðun sinni að flestir urðu fyrir gríðarlegum vonbrigðum með þessa óábyrgu ákvörðun forseta Íslands.“

Aðspurður sagði Björgvin að ekki hafi borið á góma að slíta stjórnarsamstarfi og efna til alþingiskosninga. „Það var ekkert annað en að halda þessu samstarfi áfram af fullum krafti og undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna. Vinna þannig úr málum að lágmarka skaðann og halda áfram að vinna þjóðina út úr þessum erfiðleikum.“

Björgvin sagði óvíst hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Hún krefjist nokkurs undirbúnings og það taki sjálfsagt einhverjar vikur og mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert