Stöðugleikasáttmálinn ekki í uppnámi

Gylfi Magnússon kemur til fundar í Ráðherrabústaðnum.
Gylfi Magnússon kemur til fundar í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sagði eftir fund stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins að stöðugleikasáttmálinn sem slíkur væri ekki í uppnámi, en það væri ljóst að ákvörðun forseta Íslands hefði áhrif á margt sem menn reyndu að ná fram með honum.

Gylfi segir að ákvörðun forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar hafi augljóslega slæm áhrif á atvinnulífið. Þetta gæti haft áhrif á atvinnuástand, atvinnuleysi og hugsanlega kaupmátt almennings. En hversu mikil fari eftir því hversu fljótt íslenskum stjórnvöldum takist að leysa þann vanda sem þau standi frammi fyrir. Takist það tiltölulega fljótt þurfi áhrifin hvorki að vera djúpstæð né varanleg. 

Það sé hins vegar skelfileg tilhugsun lendi Íslendingar í langvinnum milliríkjadeilum fram eftir árinu.

Hann segir að sér kæmi ekki á óvart ef fleiri matsfyrirtæki fylgdu í kjölfar Fitch og lækkuðu lánshæfismat Íslands. Gylfi vonast hins vegar til þess að svo verði ekki.

Gylfi segir að fundurinn hafi verið ágætur. Þar hafi mennlýst áhyggjum og farið almennt yfir stöðuna, skipst á skoðunum og upplýsingum. Engin ákvörðun var hins vegar tekin á fundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert