Ítarlega er fjallað um ákvörðun forseta Íslands um að skrifa ekki undir lög um endurgreiðslu á þeim 2,3 milljörðum punda sem breskir skattgreiðendur hafi lánað á fréttavef Times í dag. Þar kemur fram að þetta sé áfall fyrir erfiðan fjárhag breska ríkisins en breska ríkið hafi greitt Bretum sem hafi átt innistæður á reikningum Icesave út trygginguna árið 2008.
Flestir þeirra sem hafa skrifað ummæli við fréttina eru jákvæðir í garð Íslendinga og segja ekki rétt að Íslendingar greiði. Það hafi verið háir vextir í boði og mikil áhætta samfara því. Það sé því innistæðueigenda að bera ábyrgðina sjálfir.
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, greiddi bresku innistæðueigendunum til baka þar sem hann hafði lofað því að breskir sparifjáreigendur myndu ekki tapa neinu á gjaldþroti Landsbankans, samkvæmt frétt Times. Hins vegar hafi íslenski tryggingasjóðurinn ekki átt næga fjármuni til þess.
Í annarri frétt á vef Times segir að upphaf vandans megi rekja allt aftur til byrjun tíunda áratugar síðustu aldar þegar Íslendingar tóku upp heimskautaútgáfu af Thatcherisma, með einkavæðingu ríkisbankanna og minni hömlum á þá. Fljótlega eftir einkavæðingu bankanna komust þeir í hendur fárra útrásarvíkinga. Á tímum þar sem meira eftirlit var hefðu þeir verið skikkaðir til þess að halda sig á litlum heimamarkaði. Hins vegar einkenndi mikill vöxtur alþjóðlega fjármálamarkaði og milljarðar flæddu.
Þegar sérfræðingarnir fóru að óttast fundu bankarnir nýja leið til þess að ná sér í lausafé. Kaupþing með Edge reikningum sínum og Landsbankinn með Icesave. Breska regluverkið er flókið og gerðu breskar eftirlitsstofnanir ekkert til þess að stöðva íslensku bankanna enda voru íslenskar ríkisábyrgðir til staðar.