„Mér finnst það til skammar að ég sé ekki búinn að fá svör. Ég hef mikið hugsað um þetta Icesave og verð alltaf reiður þegar ég geri það,“ segir Rúnar Freyr Júlíusson, 10 ára Hafnfirðingur, spekingslegur á svip.
Hann hefur í þrígang ritað mótmælabréf í tölvupósti til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra en ekki fengið nein svör enn.
Rúnar segist ætla að senda bréfið í fjórða sinn ef engin svör fást. Morgunblaðið fékk ekki svör frá aðstoðarmanni Jóhönnu í gær en aðstoðarmaður Steingríms sagði hann ætla að svara Rúnari Frey við fyrsta tækifæri, en ekki hefði tekist að svara fjölda bréfa sem fjármálaráðherra hefði fengið persónulega á síðustu vikum.
Sjá nánar um bréfaskriftir og mótmæli Rúnars Freys í Morgunblaðinu í dag.