Ákvörðun forsetans vonbrigði

Þingflokkur VG á fundi í dag.
Þingflokkur VG á fundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins að það hefðu orðið sér vonbrigði þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, neitaði að staðfesta Icesave-lögin á ríkisráðsfundi á gamlársdag og enn meiri vonbrigði þegar forsetinn ákvað í gær að synja lögunum staðfestingar.

Sagði Steingrímur, að það sem sér þætti erfiðast að sætta sig við, væri að vegna ákvörðunar forsetans væri þrotlausri vinnu undanfarna 11 mánuði við að halda alþjóðlegu matsfyrirtækjunum rólegum  sett í óvissu. 

Steingrímur sagði, að ekkert lægi annað fyrir en að þjóðaratkvæðagreiðsla fari nú fram um Icesave-lögin. Ríkisstjórnin færi að stjórnarskrá og lögum og undirbyggi kosninguna eins og vera ber.

Þegar Steingrímur var spurður hvort ríkisstjórnin myndi leggja atkvæðagreiðsluna þannig upp, að stjórnin færi frá yrði lögunum synjað, sagðist hann ekki ætla að tjá sig um það á þessu stigi. Nægur tími væri til stefnu en nú væri að koma í ljós, að tæknilega væri væntanlega ekki gerlegtt að kjósa fyrr en undir lok febrúar í fyrsta lagi.

Hann sagðist hins vegar ekkert útiloka í þessum efnum. Oft tæki umræðan völdin og erfitt væri að sjá fyrirfram hvernig hún þróaðist. Þetta væri hins vegar örlagamál, ekki bara fyrir  ríkisstjórnina heldur einnig landið.

Steingrímur sagði að vissulega hefðu menn rætt ýmislegt, þar á meðal hvort ríkisstjórninni yrði sætt ef lögin yrðu felld í þjóðaratkvæðagreiðslu og málið því í enn meiri klessu. Steingrímur sagði einnig ljóst, að hann yrði ekki afskiptalaus í þessari kosningabaráttu enda hefði hann talað lengi fyrir samningunum um Icesave og ýmislegt af því sem hann hefði sagt í sumar og haust og túlkað var sem hræðsluáróður hafi reynst rétt.  

Undir Steingrím voru borin ummæli Evu Joly í fréttum Sjónvarpsins í kvöld, að Íslendingar ættu   ekki að taka mark á hótunum Breta og Hollendinga. Hann sagði rétt, að ekki ætti að taka mark á hörðustu ummælum en hins vegar hefðu viðbrögðin við ákvörðun forsetans í gær sumpart verið harðari en búast hefði mátt við.

Steingrímur sagði í dag að hann færi hugsanlega til Bretlands og Hollands til viðræðna við ráðamenn síðar í vikunni. Þegar hann var spurður hvort möguleiki væri á að hefja samningaviðræður um Icesave-málið að nýju sagði hann að nú snérist vinna um að róa ástandið niður, koma upplýsingum á framfæri, útskýra hvað gerðist í gær og tryggja að það séu virkir gangvegir opnir milli landa. Málið væri ekki komið á það stig að menn séu farnir að ræða um meira en auðvitað væri öllum möguleikum haldið opnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert