ESB metur Icesave-málið

Höfuðstöðar ESB í Brussel.
Höfuðstöðar ESB í Brussel. Reuters

Evr­ópu­sam­bandið mun taka mið af því hvernig Ísland hef­ur haldið á Ices­a­ve-mál­inu þegar lagt verður mat á um­sókn Íslands um aðild að sam­band­inu. Þetta sagði talsmaður fram­kvæmda­stjórn­ar ESB í morg­un.

Fram­kvæmda­stjórn­in und­ir­býr nú skýrslu um það hve lang­an tíma viðræður við Ísland um aðild muni taka.  Talsmaður­inn sagði, að þar verði að sjálf­sögðu tekið til­lit til þess hvernig Íslandi gangi að upp­fylla aðild­ar­skil­yrði.

„Í þessu sam­hengi verða efna­hags­leg mál, líkt og Ices­a­ve-málið... skoðuð ofan í kjöl­in í ljósi þess hvernig Ísland upp­fyll­ir skuld­bind­ing­ar sín­ar á Evr­ópska efna­hags­svæðinu," sagði talsmaður­inn.  

Haft var eft­ir Paul Myners, aðstoðarfjármálaráðherra Bret­lands, í blaðinu The Times í dag, að Ices­a­ve-málið geti haft áhrif alþjóðlegt sam­starf Íslend­inga þverskall­ist Íslend­ing­ar við að staðfesta Ices­a­ve-samn­ing­inn. Íslensk stjórn­völd geri sér fulla gein fyr­ir því að sam­starfi við Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðinn sé stofnað í hættu og sömu­leiðis mögu­legri aðild að Evr­ópu­sam­band­inu.

„Ég held ekki að við þurf­um að vara þá við," hef­ur blaðið eft­ir hon­um. „Íslenska rík­is­stjórn­in viður­kenndi að staðan væri þessi."  

Talsmaður fram­kvæmda­stjórn­ar ESB sagði,  að fram­kvæmda­stjórn­in voni að viðun­andi lausn ná­ist fyr­ir alla aðila, en bætti við: „Ices­a­ve-sam­komu­lagið... er aðallega tví­hliða mál milli Íslands ann­ars veg­ar og Bret­lands og Hol­lands hins veg­ar, því það snýst um bæt­ur handa bresk­um og hol­lensk­um spari­fjár­eig­end­um sem áttu fé á Ices­a­ve-reikn­ing­um.  

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert